Við viljum byrja á því að óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs með von um að árið 2025 verði okkur öllum gott.
Dagana 6. – 8. febrúar verður heldur betur nóg um að vera á vettvangi upplýsingatækni og við látum okkur ekki vanta. Fyrst ber að nefna stutta ráðstefnu um netöryggismál sem nefnist „ICANN – Afternoon on Internet Security“ og haldin verður þann 6. febrúar frá kl. 13:00 – 17:00 í húsakynnum ISNIC, Katrínartúni 2. Okkar maður, Sigurður Gísli Bjarnason, flytur erindi á ráðstefnunni ásamt fjölda annarra ræðumanna. Hægt er að lesa meira um viðburðinn og skrá sig á heimasíðu ICANN.
Svo í beinu framhaldi verðum við á UTMessunni í Hörpu dagana 7. og 8. febrúar. Við verðum með bás í Hörpu og munum kynna starfsemi okkar fyrir gestum og gangandi. Kíkið endilega við á básinn okkar og tökum spjallið um netöryggi.

